Banjó, bjór og dixieland goðsögn

Flestir tónlistarmenn kannast við að fara inn í hljóðfæraverslun og ganga aftur út stuttu síðar með eitthvað sem þeir hafa nákvæmlega ekkert við að gera.

Einn dag árið 2004 verslaði ég mér einmitt 6 strengja banjó sem ég vissi ekkert hvort myndi gagnast mér á nokkurn hátt.

Í þá daga vann ég á leikskólanum Hagaborg í Vesturbæ Reykjavíkur. Þá var sonur hins magnaða selló- og bassaleikara, Stefáns Arnar Arnarsonar, einn af krökkunum á deildinni minni og þegar Stefán sótti strákinn í lok dags lentum við oft á löngu og góðu spjalli um músík. Þegar ég sagði honum frá þessum undarlegu banjó-kaupum mínum heimtaði hann að ég kæmi á æfingu hjá Dixieland Jazz hljómsveitinni Sparibuxurnar hans afa. Á fyrstu æfingunni voru þessir sprenglærðu herramenn allir með nótnablöð og ég fékk minn bunka af blöðum, sem hefðu allt eins getað verið Latína fyrir mér.

Daginn eftir fór ég í leiðangur, varð mér úti um lögin á hljóðformi og pikkaði þau upp eftir eyranu. Æfing tvö hljómaði því mun betur. Gítarbanjó er öllu jafna stillt þremur tóntegundum neðar en venjuleg gítarstilling. Svo til að spila G-dúr þurfti ég að spila E-dúr. Banjóleikari í dixielandi sér þó meira um rytha-áslátt en hljóma. Enda hljóma þessi banjó eins og djöfullinn sjálfur. Eftir örfáar æfingar var slegið í eina magnaða tónleika í Iðnó þann 19. mars árið 2005. Þar voru Steinar Sigurðarson, ofur saxafónleikari Íslands, og básúnuleikarinn síkáti Sammi "Jagúar" með á tónleikunum. En þeir voru ekki fastameðlimir í bandinu. Það voru Stefán Örn (kontrabassi), Ellert Breiðfjörð (trommur) og John Gear hins vegar. John stofnaði bandið, sá um hljómsveitarstjórn, söng og skiptist á að spila á píanó og trompet. Tónleikarnir gengu svo vel að nú voru það bara heimsyfirráð eða dauði ! Við fórum í World Tour... eða allt að því. Þeir fastráðnu og ég héldum í víking til Englands þar sem við spiluðum í afmælisveislu hjá föður John, í pínu litlu þorpi rétt fyrir utan London. Þar bættust í hópinn lókal básúnuleikari og klarinettleikari sem hafði marga fjöruna sopið í dixieland-bransanum. Þessi klarinettleikari var enginn annar en Terry Lightfoot!

Fyrir þau ykkar sem eru ekki vel að sér í jazz-danstónlist þá spilaði hann meðal annars með Louis Armstrong og Ellu Fitzgerald, var einn fremsti hljómsveitarstjóri Breta á gullöld dixielandsins og hljómsveitir eins og The Beatles og The Who hituðu upp fyrir hann áður en þær slógu í gegn sjálfar. Þarna vorum við semsagt í litlu félagsheimili að spila með þessum magnaða klarinettleikara og ég búinn að spila á skrattans banjóið í 2 mánuði! Giggið gekk vel en hljómsveitarstjórinn hafði fundið sig knúinn til að biðja mig að hemja mig þegar við spiluðum með svo virðulegum og mikilvægum tónlistarmanni líkt og Terry. Sérstaklega var tekið fram að ég átti ekki, undir neinum kringumstæðum, að bregða mér í Louis Armstrong eftirhermuna mína í laginu Hello Dolly því herra Lightfoot hefði þekkt hann vel og gæti tekið því illa.


Eins og sést á myndinni hér til hliðar, sem er af okkur Terry á gigginu góða, er ég afar einbeittur og sjálfum mér til sóma. Kannski fyrir utan skyrtuna, hvað er að frétta? Þarna hafði ég greinilega ekki kynnst konunni minni! Svo kom að því að bandið skellti sér í lagið Hello Dolly og allt fór á fullt. Í svona tónlist eru lögin oftast grípandi, einföld og stutt. En það er bætt upp með endalausum spunasólólum allra hljómsveitarmeðlima. Lifandi og skemmtilega músík sem er algjör snilld að spila með góðu bandi. Framan af laginu stóð ég mig eins og hetja! Stóð mína plikt, hamraði banjóið, brosti út að eyrum og þóttist lesa nóturnar inn á milli. Svona til að líta út fyrir að vita hvern andskotann ég væri að gera. Svo gerðist það!

Eftir heila eilífð af sólóum frá öllum hinum meðlimum bandsins horfði Léttfeti á mig stórum augum og hvatti mig til einleiks. Verandi rétt griphæfur á banjóið greip ég hljóðnemann sem notaður var til að magna upp banjó-garminn og viti menn Louis Armstrong sjálfur söng í gegnum mig! Það var líkt og ég væri andsetinn. En ef einhver ætlar að yfirtaka líkama minn tímabundið þá er ég glaður að það sé gamli gleðigjafinn "herra handsterkur". Á þessu augnabliki myrti hljómsveitarstjórinn mig með augunum en allir aðrir, þar á meðal Terry, skellihlógu og höfðu gaman af þessari augnabliks-klikkun sem átti sér stað á meðal fólks sem var mun dannaðara en ég hvað almenna kurteisi og framkomu varðaði. Eftir giggið var komið að því að smakka "örlítið" af þessum bjór sem hafði verið boðið upp á í veislunni.

Síðla kvelds stóð ég svo við pissuskálina þegar að Terry gekk inn og vatt sér að næstu hlandskál. Við spjölluðum eins og menn gera þegar þeir lenda í svo innilegum aðstæðum. Hann var eldhress og skemmtilegur með eindæmum. Eftir handþvott var bara undarlegt að standa og spjalla saman inni á klósettinu svo við fórum aftur fram í veislusalinn. Rétt áður en ég gekk í átt að mínum mönnum í bandinu kvaddi ég herra Lightfoot sem horfði þá glaðlegur á mig og sagði:"Louis would have liked you". Sjaldan eða aldrei hefur mér fundist ég jafn mikilvægur og tengdur sjálfri tónlistarsögunni! Allt þetta út af banjóinu sem ég keypti "alveg óvart" nokkrum mánuðum áður.